UM ÆVAR

Forlagid_Aevar.jpg
ÆVAR ÞÓR BENEDIKTSSON
 

Ævar Þór Benediktsson fæddist 9. desember árið 1984. Hann útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2004 og úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Frá útskrift úr LHÍ hefur hann leikið ýmis hlutverk í Þjóðleikhúsinu, m.a. Lilla Klifurmús í Dýrunum í Hálsaskógi og mennska hrossið Blóra í söngleiknum Spamalot. Hann var um tíma einn af þáttastjórnendnum barnaþáttanna Vitans og Leynifélagsins á Rás 1 og Helgarvaktarinnar á Rás 2. Auk þess hefur hann skrifað regluleg innslög fyrir Stundina okkar og er höfundur þáttanna um Ævar vísindamann og Vísindavarps Ævars, útvarpsþátta um vísindi fyrir forvitna krakka á öllum aldri.

 

Árið 2007 sigraði Ævar Örleikritasamkeppni Borgarleikhússins og Ljósvakaljóð, stuttmynda-handritakeppni RIFF. Þá var hann, ásamt öðrum, tilnefndur til Grímunnar fyrir besta barnaleikritið, Hvað býr í pípuhattinum?, árið 2011. 2009 hlaut útvarpsþátturinn Leynifélagiðsem Ævar var þá hluti af - Vorvinda, viðurkenningu IBBY-samtakanna fyrir framlag til barnamenningar á Íslandi. Þá stóð hann fimm sinnnum fyrir Lestrarátaki Ævars vísindamanns, en í átökunum voru um 330 þúsund bækur lesnar samtals.
 

Haustið 2014 fékk Ævar fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar fyrir starf sitt sem Ævar vísindamaður og jólin sama ár vann hann íslensku bóksalaverðlaunin fyrir bestu íslensku barnabókina, Þína eigin þjóðsögu. Veturinn 2015 var hann tilnefndur til íslensku vefverðlaunanna fyrir besta einstaklingsvefinn (www.visindamadur.is) og í febrúar sama ár vann hann Eddu-verðlaunin fyrir besta barna- og unglingaefnið fyrir þættina um Ævar vísindamann. Vorið 2015 vann Þín eigin þjóðsaga Bókaverðlaun barnanna sem besta íslenska barnabókin og haustið 2015 var Ævar tilnefndur sem einn af tíu Framúrskarandi ungum Íslendingum.

Veturinn 2016 var Ævar svo tilnefndur til þriggja Eddu-verðlauna fyrir þættina um Ævar vísindamann, m.a. sem sjónvarpsmaður ársins, en þættirnir hlutu tvenn verðlaun á hátíðinni; besta barna- og unglingaefnið og besti lífsstílsþátturinn. Í mars 2016 hóf Ævar samtarf við UNICEF sem sérstakur talsmaður hreyfingarinnar og seinna sama vor var hann gerður að heiðursfélaga Kiwanis-klúbbsins Kötlu starfsárin 2016-2017, fyrir starf sitt tengt börnum og barnamenningu.

Veturinn 2017 voru þættirnir um Ævar vísindamann aftur tilnefndir sem lífsstílsþáttur og barna-og unglingaefni ársins, ásamt því að Ævar var annað árið í röð tilnefndur sem sjónvarpsmaður ársins. Þátturinn hlaut Edduna fyrir barna- og unglingaefni. Veturinn 2017 var Ævar valinn á Aarhus39-listann, lista yfir 39 bestu barnabókahöfunda í Evrópu undir fertugu. Sama vetur var hann tilnefndur til alþjóðlegu ALMA-verðlaunanna (Astrid Lindgren Memorial Awards) sem ,,promoter of reading". Vorið 2017 hlaut Ævar svo sérstaka viðurkenningu frá Samtökum móðurmálskennara fyrir framlag sitt til tungumálsins og lestrar.

Haustið 2017 hlaut Ævar titilinn Framúrskarandi ungur Íslendingur fyrir afrek á sviði menntamála, en verðlaunin voru veitt af JCI á Íslandi. Fjórða þáttaröðin af Ævari vísindamanni hlaut svo fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á Degi íslenskrar náttúru fyrir að fjalla á fjölbreyttan, fræðandi og skemmtilegan hátt um umhverfið, náttúruna og náttúruvernd. Í desember var Þitt eigið ævintýri tilnefnt til íslensku bókmenntaverðlaunanna sem besta barna- og unglingabókin.

Vorið 2018 var Ævar tilnefndur til foreldraverðlauna Heimilis og skóla fyrir lestarátak Ævars vísindamanns, auk þess að hljóta Vorvindaviðurkenningu IBBY fyrir framlag sitt til barnamenningar á Íslandi. Í byrjun apríl, á Landsþingi Lions, fékk Ævar Melvin Jones-viðurkenninguna fyrir ötult starf sitt í lestrarátaki barna. Haustið 2018 var hann svo aftur tilnefndur til ALMA-verðlaunanna, sem ,,promoter of reading".

Þessa dagana býr Ævar í Reykjavík með unnustu, syni og ketti og reynir að sofa út allavega einu sinni í viku. Það tekst sjaldnast.