top of page

,,Hvenær ætlarðu nú að hætta að skrifa þessar barnabækur og fara að skrifa eitthvað alvöru?"


Ávarp á málþinginu: ,,Barnabókin er svarið" - 4. október 2017 Kæru gestir. Til hamingju með daginn. Takk fyrir að bjóða mér.

Fyrir nokkrum árum síðan var ég á leiðinni í leikhús í Tjarnarbíói. Þeir sem hafa komið þangað vita að stundum myndast smá tappi við barinn, þar sem röðin í drykki og röðin inn í salinn blandast saman í týpískan íslenskan raðar-haug. Og þar rakst ég á kunningja minn. Mann á mínum aldri - strák ætti ég auðvitað að segja - sem er í sömu kreðsu og ég og finnst gaman að spjalla. Bókin mín, Þín eigin goðsaga, var nýkomin út og hann vippar sér upp að mér. Hann vildi greinilega spjalla, ég var til í það. Stemmingin í höfðinu á mér breyttist hins vegar allsvakalega þegar þessi kunningi minn hafði varla heilsað áður en hann sagði glottandi, hátt og snjallt yfir allt Tjarnarbíó: ,,Hvenær ætlarðu nú að hætta að skrifa þessar barnabækur og fara að skrifa eitthvað alvöru?" Ég elska að skrifa fyrir börn. Ástæðan fyrir þessu er einföld: Ég las sem barn. Ég elskaði bækur. Og geri enn. Og þess vegna skrifa ég í dag. Því ég fann eina bók sem náði mér - og svo fann ég aðra. Vegna þess að bækurnar sem ég las, sumar hverjar eftir höfunda sem sitja hér í salnum, hittu í mark. Höfðu áhrif. Sátu í mér.

Ég kynnist nördum eins og Bert, hetjum eins og Línu, riddurum eins og Benjamín, fjármálasnillingum eins og Jóakim og því að þótt að B2 sé/séu fáránlega spennandi geimverur/geimvera fannst mér jafnvel enn meira spennandi að fylgjast með konunni sem stundum skrifar bækur sem var alltaf að laumast í bakgrunninum. Sögur eru lífsnauðsynlegar, við nærumst á sögum, en til að njóta þeirra þurfum við að geta lesið þær. Og við þurfum að hafa áhuga á að lesa þær. Ef ein bók er skemmtileg get ég lofað þér því að önnur bók er það líka. Lykillinn er bara að finna þessa fyrstu bók sem sannar það.

Eitt af því mikilvægasta þegar kemur að lestri finnst mér vera snobbleysi. Þ.e. við þurfum meira af því. Við megum ekki vera snobb þegar kemur að bókum og lestrarefni, bæði þegar kemur að börnum og fullorðnum. Sumir fullorðnir lesa 50 Shades of Gray - mér myndi aldrei detta það í hug, en hey! Í síðustu viku var ég að lesa bók um trúð sem býr í holræsi og borðar börn. Ég ætla ekki að dæma nokkurn mann. Burt með snobbið. Kafteinn Ofurbrók er frábær, þótt það séu margar myndir og orðið ,,brók" kemur fyrir í titlinum. Ef krakkar vilja lesa teiknimyndasögur á að leyfa þeim það. Hvernig lærðu margir dönsku hér í denn? Með því að lesa Andrés önd. Einhvers staðar verður maður að byrja. Og það má læra alveg jafn mikið af vel þýddri teiknimyndasögu eins og hverju öðru. Orðaforðinn í meistaralegum þýðingum Lofts Guðmundssonar á blótsyrðum Kolbeins kafteins hefur gagnast mér miklu betur heldur en mörg skyldulestrarbókin. Jú jú, Ari sá vissulega sól en ,,Fari það í þúsund trilljón tryllta, tarfóða, tólgsadda, tannhvalsétandi, termítabitna túnfiska í Trékyllisvík!" er líka nokkuð gott.

Já, og meðan ég man: Þótt við fullorðna fólkið höfum einhvern tímann elskað einhverja ákveðna barnabók, þýðir það ekki að börnin okkar munu gera það. Þannig að ef barnið þitt vill ekki lesa uppáhaldsbókina þína frá því þegar þú varst lítill eða lítil þýðir það ekki að uppeldið hafi klikkað - bara að barnið er önnur manneskja en þú. Og það er í góðu lagi. Að því sögðu; ef barnið mitt mun ekki dýrka Dagbók Berts og Harry Potter verður það gert arflaust á staðnum.

En hvað erum við eiginlega að gera hérna? Hvers vegna þarf að halda fund eins og þennan sem við erum hér á í dag? Setningin ,,Hvenær ætlarðu nú að hætta að skrifa þessar barnabækur og fara að skrifa eitthvað alvöru?" fangar ástæðuna fullkomlega. Því það er ekkert mál að skrifa barnabók, ekki satt? Barnabækur eru ekkert alvöru bókmenntir, er það nokkuð? Eru þetta ekki bara nokkrar setningar? Bara nokkrar myndir? Bara nokkrir kaflar? Bara grunnt og alls ekki djúpt? Bara eitthvað sem þú hendir í? Bara og bara og bara og bara. En staðreyndin er samt sú að það er ekkert ,,bara" við það að skrifa barnabók. Góð og vönduð barnabók er ímyndunarafls-sprengja og ef hún hittir í mark er hún besta kennsluefni sem þú getur fundið. Í gegnum barnabókina lærum við muninn á góðu og illu, við lærum að gjörðir hafa afleiðingar og við lærum að fólk er alls konar. Og það er í lagi að vera alls konar.

En til að geta upplifað sögurnar, lesið sögurnar - þá verðum við að kunna að lesa. Og hafa áhuga á því. Og það hefur aldrei verið mikilvægara en núna. Lesturinn er ekki bara nauðsynlegur þegar kemur að bókum: Ef við kunnum ekki að lesa getum við ekki myndað okkur sjálfstæða skoðun. Við getum ekki séð í gegnum það þegar einhver er að ljúga að okkur - eða segja okkur sannleikann. Það er ekkert ,,bara" við það að skrifa barnabók. Sama hvað fjölmiðlum og stjórnvöldum finnst. Því þar liggur vandinn líka. Þegar þýddir krimmar fá ótalmarga dóma en varla er minnst á nýju íslensku barnabækurnar setur mann hljóðan, með fullri virðingu fyrir þýddu krimmunum. Þegar stjórnvöld segja að lestur skipti öllu máli, hlaupa af stað en gleyma að tala við útgefendur, höfunda og grunnskólana, setur mann hljóðan. Þegar ný barnabók fær einnar setningar-dóm í stærsta bókmenntaþætti þjóðarinnar og setningin er ,,Það er hægt að opna þessa bók svakalega mikið," setur mann hljóðan. Það er ekkert mikilvægara en barnabók. Hún er sprengja, hún er kveikur, hún er lífsnauðsynleg. Allt byggist á henni. Hún er grunnurinn.

Fyrir þremur árum síðan var ég á leiðinni í leikhús í Tjarnarbíói og kunningi minn spurði glottandi: ,,Hvenær ætlarðu nú að hætta að skrifa þessar barnabækur og fara að skrifa eitthvað alvöru?"

Venjulega hefði ég ullað einhverju fáránlegu út úr mér. Muldrað eitthvað lélegt. Eitthvað sem hefði mátt orða betur. En það var ekkert venjulegt við þetta augnablik. Ég gerði mér allt í einu grein fyrir því að hvernig ég myndi svara myndi skilgreina það hvernig ég lít á sjálfan mig sem höfund. Sem barnabókahöfund. Það hægðist á öllu, sem er eitthvað sem ég hafði bara lesið um í hrollvekjum og séð í bíómyndum. Og í eitt augnablik setti mig hljóðan. Eins og svo oft áður. En svo sneri ég mér að kunningja mínum, glotti til baka og svaraði hátt og snjallt: ,,Það er út af nákvæmlega þessari spurningu sem ég ætla að halda áfram að skrifa fyrir börn og unglinga."

Ég var ánægður með það svar. Mér þótti það skrambi gott. Mig setti ekki hljóðan. Og þannig lít ég á þessa samkomu í dag - sem svar. ,,Barnabókin er svarið". Skrambi gott svar við fáránlegum aðstæðum. Og nú þegar svarið er komið getum við byrjað að tala saman - fyrir alvöru.

Takk fyrir mig.

Nýlegt
Archive
bottom of page