top of page

Ævar Þór einn af bestu barnabókahöfundum Evrópu

Stórtíðindi af Bókamessunni í London. Alþjóðlega barnabókahátíðin Hay Festival hefur kynnt hinn svokallað Aarhus 39-lista, 39 bestu evrópsku barnabókahöfundana undir 39 ára aldri. Ævar Þór Benediktsson, best þekktur sem Ævar vísindamaður, var þar á meðal, einn Íslendinga. Hann er staddur í London til að veita viðurkenningunni móttöku og taka þátt í pallborðumræðum um barnabækur.

Ævar er að vonum ánægður: „Þetta er mikill heiður og virkilega gaman að komast þarna á blað. Íslenskar barnabækur eru vel á pari við þær erlendu.” Höfundarnir á listanum koma til með að vinna saman að metnaðarfullu verkefni fyrir menningarborg Evrópu, Aarhus. Til stendur að halda bókmenntahátíð þar síðar á árinu auk þess sem að út koma tvö söfn með verkum höfundanna á dönsku og ensku. Í dómnefnd sátu þrír virtir barnabókahöfundar; Kim Fupz Aakeson frá Danmörku, Ana Cristina Herreros frá Spáni og Matt Haig frá Englandi. Höfundarnir sem valdir voru fengu það verkefni að skrifa sögu byggða á þemanu „Ferðalag“ en þær koma út í fyrrnefndum söfnum hjá Alma Books í Bretlandi og Gyldendal í Danmörku.

Saga Ævars, ,,Bókaflóttinn mikli”, fjallar um einstaklega vaskan bókasafnsfræðing sem kemst í hann krappan. Næsta bók Ævars kemur út nú í maí og verður sú þriðja í röðinni um bernskubrek Ævars vísindamanns. Hún ber nefnið Gestir utan úr geimnum. Bókin er ákveðinn lokahnykkur í þriðja Lestrarátaki Ævars en að vanda voru fimm heppnir krakkar dregnir út sem verð að persónum í bókinni. Að þessu sinni var það Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem dró úr pottinum. Aldrei hafa verið lesnar fleiri bækur en í ár, rúmlega 63 þúsund talsins. Ævar hefur boðað að átakið verði haldið í fjórða sinn næsta vetur.

Nýlegt
Archive
bottom of page