Risaeðlurnar komast á blað bandarískra verðlauna
Fyrsta bók Ævars Þórs Benediktssonar um bernskuberk hins geysivinsæla Ævar vísindamanns, Risaeðlur í Reykjavík, komst á dögunum á blað bandarískra verðlauna sem sérhæfa sig í vísindabókum fyrir börn. Verðlaunin nefnast „The DeBary´s Children´s Science Book Award“ (nefnd í höfuðið á vísindamanninum Heinrich Anton de Bary) og veita verðlaun fyrir bestu barnafræðibókina í tveimur flokkum; eldri og yngri.
Risaeðlur í Reykjavík hlaut ekki verðlaunin í þetta skiptið, en komst þó á blað sem ein af bestu bókum síðasta árs. Í tilkynningu sem samtökin APS sem halda utan um verðlaunin sendu frá sér kemur fram að þetta er í fyrsta skipti sem að verðlaunanefndin hefur tekið til greina alþjóðlega bók og að blessunarlega hafi fundist þrír gestadómarar sem gátu lesið íslensku og kannist við íslenska bókmenntahefð. Verðlaunanefndin hefur í framhaldi af þessu tekið þá ákvörðun að gera alþjóðlega bækur gjaldgengar til verðlaunanna.
Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að Ævar og vinir hans hafi verið afar góður félagsskapur á meðan á lestrinum stóð og að teikningar Ránar Flygenring hafi verið bráðfyndnar. Þá hafi verið mun auðveldara og ekki nærri því eins ógeðslegt að lesa Risaeðlur í Reykjavík og íslensku víkingasögurnar. Síðustu orð umsagnarinnar eru að hér sé á ferðinni höfundur sem hreinlega verði að þýða á ensku. Bækurnar um bernskubrek Ævars vísindamanns koma út í tengslum við lestraráktökin sem Ævar hefur staðið fyrir undanfarin tvö ár en von er á þriðju bókinni nú í vor, sem ber heitið Gestir utan úr geimnum.
Áður hafa komið út fyrrnefnd Risaeðlur í Reykjavík og Vélmennaárásin sem báðar hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda og leseanda og báðar orðið sannkallaðar metsölubækur. Auk þess var Vélmennaárásin tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna nú rétt fyrir jól.