top of page

Ef kennararnir hverfa erum við í vondum málum


Mynd eftir Dag Hjartarson

Í dag, 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu fékk ég sérstaka viðurkenningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir störf mín í þágu íslensks máls. Af því tilefni flutti ég þessa ræðu: Forseti, mennta- og menningarmálaráðherra – góðir gestir. Til hamingju með daginn. Ég vil byrja á því að þakka fyrir mig. Þetta er gríðarlegur heiður og viðurkenning sem ég átti alls ekki von á. Takk fyrir mig. Þegar ég byrjaði að skrifa bækur var það vegna þess að mig langaði til þess að segja sögur.

Þegar ég bjó til Ævar uppfinningamann – sem hann hét upphaflega – langaði mig að búa til persónu sem gæti fjallað á áhugaverðan hátt um heiminn og öll hans miklu undur. Ég kallaði hann Ævar og notaði mín eigin gleraugu því ég var handviss um að þetta myndi engan veginn ganga upp.

Þegar ég ýtti lestrarátökunum úr vör var það vegna þess að ég mátti ekki til þess hugsa að heilu árgangarnir af krökkum – og seinna fullorðnu fólki – myndi missa af sögunum sem ég las á þeirra aldri – og svo nýju sögunum. Sem bókaormur brenn ég fyrir lestri. Ég get ekki útskýrt þetta almennilega – sumir elska ananas, ég elska lestur. Lestur er gríðarlega mikilvægur – en ekki bara á augljósasta háttinn. Við þurfum ekki bara að kunna að lesa til að geta týnt okkur í bók, heldur líka til þess að skilja hvað er í gangi í heiminum. Við þurfum að kunna að lesa og þurfum að kunna að túlka texta svo við getum myndað okkur sjálfstæða skoðun og skilið þegar verið er að segja okkur ósatt. Lestur skiptir höfuðmáli þegar kemur að því að vera þjóðfélagsþegn.

Ég vil þakka Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, bæði fyrir þessa viðurkenningu og sömuleiðis við stuðninginn við lestrarátak Ævars vísindamanns. Sömuleiðis vil ég þakka öllum þeim félagasamtökum og fyrirtækjum sem hafa komið að því að styðja við bakið á átakinu. Ég vil þakka Forlaginu – og þá sérstaklega Sigþrúði Gunnarsdóttur - fyrir að hafa gefið út bækurnar mínar og RÚV fyrir að hafa sýnt þættina mína – og þá sérstaklega Eggerti Gunnarssyni, leikstjóra, andlegum föður Ævars vísindamanns. Það er gaman í vinnunni – hvort sem hún felur í sér að sitja einn og skrifa eða hjóla út í Viðey. Hvort tveggja gefur af sér fínustu sögur. Og það er það sem allt snýst um: Sögur. Við segjum öll sögur, hvort sem við skrifum þær niður og reynum að fá aðra til að lesa þær eða þegar við segjum hvort öðru brandara eða hvernig dagurinn okkar var. Allir vilja heyra góða sögu.

Þín eigin þjósaga, Þín eigin goðsaga og Þín eigin hrollvekja – bækurnar mínar sem ég segi við krakka að virki eins og tölvuleikur – leyfa lesandanum að ráða. Reglulega stoppar bókin og segir: ,,Jæja, nú er eitthvað svakalegt handan við hornið. Hvað viltu gera? Þitt er valið.” Og svo máttu ráða. Við könnumst öll við það að lesa bækur eða horfa á sjónvarpsþætti eða kvikmyndir þar sem aðalpersónan tekur fáránlega ákvörðun. Ákvörðun sem stundum hefur svo mikil áhrif á mann og er svo augljóslega slæm að maður hreinlega verður að leggja frá sér bókina eða slökkva á sjónvarpinu, standa upp og fara bara að gera eitthvað annað, ef maður vill ekki eiga það á hættu að ærast. ,,Þín eigin”-bækurnar gera þig – lesandann – ábyrgan fyrir þessu vali. Nú getur þú tekið ákvörðun. Hún getur verið slæm eða þú getur breytt rétt. Tekið ákvörðun sem er betri. Ef bókin endar illa er það þér að kenna. Ef hún hins vegar endar vel er það frábærum höfundi að þakka – við getum öll verið sammála um það.

Ég lærði að lesa í fyrsta bekk. Fyrsta bókin sem ég las alveg sjálfur var Selurinn Snorri. Ég stóð inni á bókasafninu í Varmalandsskóla í Borgarfirði, fletti síðustu blaðsíðunni og um leið gerði ég mér grein fyrir tvennu:

1) Ég kláraði bók! Sem þýðir:

2) Ég get lesið aðra bók!

Eins og flestir var ég tíu ár í grunnskóla: Níu ár í Varmalandsskóla í Borgarfirði og 7. bekkinn tók ég á Hólum í Hjaltadal. Ég vil nota þetta tækifæri og tileinka þessa miklu viðurkenningu fólkinu sem kenndi mér. Gömlu kennurunum mínum. Fólkinu sem kenndi mér að lesa, kenndi mér að skrifa, kenndi mér að reikna, tungumál, náttúrufræði og mannkynssögu - meira að segja íþróttakennurunum sem gerðu heiðarlega tilraun til að kenna mér að grípa (sem var eitthvað sem ég lærði ekki fyrr en ég var kominn í háskóla – þannig að það lá klárlega ekki í kennsluaðferðunum – meira hjá mér. Ég gerði s.s. þau reginmistök að horfa alltaf á þann sem var að kasta – ekki boltann).

Imba, Böðvar, Dagný, Fríða, Flemming, Alda, Bragi, Hjördís, Unnar – þetta eru örfáir af þeim fjöldamörgu kennurum sem kenndu mér á grunnskólaárunum. Sem kenndu mér m.a. að stafir mynda orð sem mynda setningar sem skapa hugmyndir sem búa til heima. Án þessa fólks væri ég ekki hér að taka við þessari viðurkenningu. Án kennaranna væri ég ekki hér. Þegar ég miðla einhverju sem Ævar vísindamaður hugsa ég til baka til kennaranna sem héldu athygli minni og hugsa: ,,Hvað gerðu þau?” og ,,Hvernig get ég gert það?”

Það er áhugavert að fylgjast með fréttum þessa dagana. Kennarar eru í milljónasta skiptið síðan ég man eftir mér, að berjast fyrir mannsæmandi launum. Ég geri mikið af því að fara í skóla og lesa eða vera með fyrirlestra og það líður varla sá dagur sem ég rekst ekki á kennara. Þetta fólk á aðdáun mína alla. Það er engan veginn sjálfsagt að einhver leggi það fyrir sig að verða kennari. Í raun ættum við alltaf að þakka kennara fyrir, þegar við mætum honum eða henni. Ég held að það sé regla sem við ættum að taka upp. Í staðinn fyrir að segja ,,Góðan daginn” þegar við mætum kennara ættum við að taka í höndina á honum eða henni, horfa djúpt í augun á þeim og segja: ,,Takk.” Og meina það alveg niður í tær.

Viðbrögð kennara við núverandi ástandi eiga ekki að koma neinum á óvart. Þau eru óánægð. Nema hvað? Þetta er stærðfræðidæmi sem er ósköp einfalt: Gríðarlegt álag plús mikill vinnutími deilt með lágum launum jafngildir fækkun í stéttinni. Þetta er einstaklega auðvelt stærðfræðidæmi. Við þurfum ekki einu sinni að kíkja aftast í bókina eða stelast til að nota vasareikni til að vita svarið. Ef kennararnir hverfa erum við í vondum málum.

Þetta er saga. Saga af nemendum og kennurum. Saga af fólki. Saga sem má ekki enda illa. Og hvort sem okkur líkar betur eða verr erum við öll persónur í þessari sögu. Og eins og í Þinni þjóðsögu, goðsögu og hrollvekju stöndum við nú á tímamótum. Það er eitthvað svakalegt handan við hornið. Hvað viljum við að gera? Valið er okkar. Veljum rétt – styðjum við bakið á kennurunum okkar.

Takk aftur. Mér þykir hrikalega vænt um þetta.

Nýlegt
Archive
bottom of page