top of page

Sumarið 2014

Er ekki sumarið örugglega til þess gert að sitja inni og skrifa á lyklaborð tengt við tölvuskjá?

Umhverfis Ísland í 30 tilraunum er komin út og er gaman að fylgjast með viðtökunum sem hafa verið gríðarlega góðar. Útgáfupartýiið var haldið í IÐU, Lækjartorgi, og fylgdi slímkennslusett og plakat með bókunum á meðan birgðir entust. Ég verð á Akureyri 17. júní næstkomandi að kynna bókina og svo hér og þar í allt sumar að gera tilraunir og spjalla við krakka landsins. Meira um það, fyrir þá sem vilja vita, á www.visindamadur.is. Þá er ég að virkja instagram-reikning Ævars vísindamanns til að spyrja spurninga um allt milli himins og jarðar og fá krakka til að spá og spekúlera.

Skrif á annari seríu af Ævari vísindamanni eru sömuleiðis á fullu. Heimildavinnan er mikil en mér sýnist allt stefna í ótrúlega skemmtilega og enn stærri þáttaröð en áður. Það fyrsta sem við gerðum var að senda alvöru geimflaug út fyrir himinhvolfið - sem er ágætis byrjun. Nú þurfum við bara að finna hana og þá ættum við að vera með snilldarmyndefni.

Vinna við einleikinn Unglamb er í gangi og verður afar áhugavert að sjá hvar þetta furðulega ferðalag Friðriks Friðrikssonar endar. Stefnt er á að æfingar hefjist í byrjun september

Og handrit að nýrri skáldsögu fyrir börn og unglinga er farin í prófarkalestur hjá Forlaginu. Hún kemur út með haustinu, tengist vísindum ekki á nokkurn hátt og er öðruvísi en nokkuð sem þú hefur lesið á íslensku. Nema hvað? Nú ætla ég örstutt út í sólina - vona að ég brenni ekki of mikið!

-Ævar

Nýlegt
Archive
bottom of page